Hátt í 200 undanþágubeiðnir borist

Undanþágunefnd Eflingar hafa borist hátt í 200 beiðnir vegna fyrirhugaðs …
Undanþágunefnd Eflingar hafa borist hátt í 200 beiðnir vegna fyrirhugaðs verkfalls olíubílstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undanþágunefnd Eflingar stefnir á að funda langt fram á kvöld til að fara yfir og afgreiða undanþágubeiðnir vegna fyrirhugaðs verkfalls olíubílstjóra. 

Þær telja hátt í 200, að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar og undanþágunefndarinnar.

Lögreglan, Landspítali og Landsbjörg eru meðal þeirra sem hafa lagt inn beiðnir. Hefur lögregla fengið sínar samþykktar.

Í tilkynningu á vef Eflingar í dag kemur fram að félagið hafi þegar átt óformleg samtöl við fulltrúa lögreglu, slökkviliðs og Vegagerðarinnar og að allt bendi til góðs samstarfs við þessa aðila um veitingu og framkvæmd undanþágna.

Stefna á að mæta á fyrsta fund ríkissáttasemjara

Ástráður Haraldsson héraðsdómari var í dag settur sem ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í kjölfar þess að Aðalsteinn Leifsson óskaði eftir því að víkja. Aðal­steinn gegn­ir eft­ir sem áður embætti rík­is­sátta­semj­ara. 

Sólveig Anna segir samninganefnd Eflingar ánægða með þessa breytingu. Ástráður hefur boðað til fundar klukkan níu í fyrramálið og hyggst Sólveig Anna mæta ásamt samninganefnd Eflingar.

„Ég vona að þetta hafi þau áhrif að raunverulegar samningaviðræður eigi sér stað og að við getum klárað að ganga frá kjarasamningi, Eflingarsamningi fyrir Eflingarfólk, hratt og örugglega.“

Verkfall hefst á hádegi

Flutn­inga­bíl­stjór­ar sem eru í Efl­ingu og starfa hjá Ol­íu­dreif­ingu, Sam­skip­um og Skelj­ungi, hafa samþykkt boðun verk­falls sem hefst að öllu óbreyttu á há­degi á morgun.

Kröfur bílstjóranna eru meðal annars að ADR-réttindi, sem olíubílstjórar og aðrir sem aka með hættuleg efni þurfa, verði metin til launa í kjarasamningum. Fer Efling fram á 670 krónur aukalega á tímann vegna réttindanna.

Þá fara olíubílstjórar sem starfa hjá Samskipum fram á að ábætir sem leggst ofan á laun hækki um 593 krónur á tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert