Landspítali hefur rætt við Eflingu um undanþágu

Landspítali hyggst leggja fram formlega beiðni um undanþágu til Eflingar.
Landspítali hyggst leggja fram formlega beiðni um undanþágu til Eflingar. mbl.is/Jón Pétur

Landspítali hyggst biðja um undanþágu til þess að tryggja það að aðfangakeðja spítalans verði óskert þrátt fyrir verkfall bílstjóra sem fyrirhugað er að hefjist klukkan 12 á morgun að óbreyttu. 

Snýr undanþágubeiðnin því um að fyrirtæki sem sjá um að koma með aðföng á spítalann fái undanþágu. 

Treysta á þjónustu birgja 

„Landspítali treystir á þjónustu ýmissa birgja þegar kemur að mikilvægum aðföngum. Dæmi um þetta eru lyf, lækningatæki, súrefni, matvæli og fleira sem nauðsynlegt er fyrir þjónustu við sjúklinga.

Ljóst er að röskun á þjónustu birgja við Landspítala getur ógnað öryggi sjúklinga og getur haft veruleg neikvæð áhrif á starfsemina. Aðfangakeðjur Landspítala eru hluti af lífæðum spítalans sem ekki mega stöðvast,“ segir í skriflegu svari spítalans við fyrirspurn mbl.is 

Hyggst senda formlega beiðni 

Landspítali hefur þess vegna átt í samskiptum við Eflingu í því skyni að afla upplýsinga um mögulegar undanþágur frá fyrirhuguðu verkfalli. Spítalinn hyggst senda inn formlega beiðni til undanþágunefndar Eflingar þess efnis.

Stjórnendur Landspítala treysta á gott samstarf við forystu Eflingar um úrlausn þessara verkefna,“ segir ennfremur í svari spítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert