Undanþágubeiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til Eflingar, um að áfram verði hægt að afla eldsneytis til að knýja bifreiðar embættisins, liggur enn á borði verkalýðsfélagsins.
Embættið hafði engin svör fengið nú á sjötta tímanum. Þetta herma heimildir mbl.is.
Fram kom í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu um hádegi í dag að undanþágunefnd þess myndi hefja afgreiðslu slíkra beiðna, er varða olíudreifingu, í dag.
Tekið var fram að Efling hefði þegar rætt við lögreglu, slökkvilið og Vegagerðina á óformlegan máta. Allt bendi til „góðs samstarfs við þessa aðila um veitingu og framkvæmd undanþága“.