Lögreglan skoði ný gögn í Óshlíðarmálinu

Bílflakið í fjörunni undir Óshlíðarveginum í september 1973.
Bílflakið í fjörunni undir Óshlíðarveginum í september 1973. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Ísafjarðar

Ríkissaksóknari hefur fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að hætta rannsókn á Óshlíðarmálinu svokallaða. Rúv greinir frá.

Málið varðar andlát Kristins Hauks Jóhannessonar, nítján ára gamals pilts, fyrir um 50 árum. Hann var farþegi í bíl sem talið er að hafi farið út af í blindbeygju í Óshlíð þann 23. september árið 1973. Var hann sagður hafa látist af slysförum.

Hætti rannsókn í október

Í maí á síðasta ári var greint frá því að lögreglan á Vestfjörðum hefði grafið upp líkamsleifar hans upp úr kirkjugarði til að rannsaka málið frekar.

Í október á síðasta ári ákvað lögreglustjórinn á Vestfjörðum að hætta rannsókninni og vísaði þá til þess að niðurstaða rannsóknar benti ekki til annars en að farþeginn hefði látist af afleiðingum umferðarslyss.

Taki afstöðu til nýrra gagna

Ríkissaksóknarinn hefur nú lagt fyrir lögreglustjórann að taka afstöðu til nýrra gagna og á grundvelli þeirra meta hvort að tilefni sé til frekari rannsóknargerðar, að því er fram kemur í umfjöllun RÚV. 

Þetta mun vera í annað skiptið sem ríkissaksóknari fer fram á að lögreglustjórinn á Vestfjörðum rannsaki málið frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert