„Hér hefur bara verið örtröð, á okkar stöðvum, í gær og í dag, enn þá meira í dag. Nú er fundað stíft um hvaða stöðvar verða í forgangi en ef fer sem horfir verða fyrstu stöðvarnar tómar strax á fimmtudaginn,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, í samtali við mbl.is en starfsfólk og stjórnendur þar á bæ búa sig nú undir verkfall olíubílstjóra sem vofir yfir á morgun.
Segir Hinrik í bígerð að halda úti nýjustu upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins um hvaða bensínstöðvar verði opnar eftir að verkfallið skellur á.
„Við sáum það í gærkvöldi og morgun að nú er fólk farið að hamstra, það er farið að mæta með gamlar smurolíutunnur og alls konar stampa og fleira og fylla á þetta,“ segir framkvæmdastjórinn og bætir því við að óforsvaranleg geymsla bensíns geti verið stórvarasöm.
„Við treystum bara á að slökkviliðið ítreki þau tilmæli til fólks að vera ekki með fleiri hundruð lítra af bensíni óvarða einhvers staðar, við getum svo sem lítið verið að standa í að brýna það fyrir fólki,“ heldur hann áfram. Áhrif verkfalls muni þó óneitanlega sverfa að standi það í einhvern tíma.
„Fyrst verður heimilisbíllinn tómur og svo flæðir þetta yfir á alla aðfangakeðjuna, alla flutninga, fólk þarf að komast til og frá vinnu, millilandasamgöngur eru hér undir og fleira.“
Hinrik segir stjórnendur N1 hafa verið í sambandi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvað undanþágur ýmissa starfsstétta varðar, svo sem lögreglu, slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila þjóðfélagsins. „Allir þurfa að sækja um undanþágu hjá Eflingu, þar með talið lögregla og slökkvilið, við munum að sama skapi sækja um undanþágu fyrir stöðvar sem hafa gegnum tíðina verið skilgreindar sem hluti af neyðarþjónustu,“ útskýrir Hinrik.
Kemur það til af því að starfsemi N1 er skilgreind sem nauðsynleg í viðbragðsáætlun almannavarna. „Við þurfum sem sagt að bregðast við og búa okkur undir að geta sinnt lögreglu, slökkviliði, björgunarsveitum og mögulega Vegagerðinni og öllum þeim sem fá undanþágu, mér skilst að Efling byrji að taka við undanþágubeiðnum í dag,“ segir Hinrik, „það eru bara allir að reyna að fóta sig í þessu, þetta hefur að minnsta kosti ekki gerst áður á minni tíð,“ segir hann að lokum.