Ingibergi Þorvaldssyni, ábúanda á Hvammi við Hólmsá rétt ofan Reykjavíkur, brá heldur betur í brún þegar hann kom heim úr vinnu í gær. Hólmsá hafði flætt yfir bakka sína og inn í kjallara íbúðahússins við Hvamm.
„Áin flæddi bara yfir hérna. Varnarkanturinn er að hluta til ekki nógu hár. Kanturinn var byggður fyrir mörgum árum síðan og hefur verið hækkaður upp. Þar hefur greinilega eitthvað svona gerst áður,“ segir Ingibergur í samtali við mbl.is.
Ingibergur segir kjallarann hafa fyllst af vatni en að húsið hafi sloppið að öðru leyti.
„Þetta er í kjallaranum hjá mér þar sem ég er með allan hitunarbúnað og allt það kerfi. Það versta er að ég var nýbúinn að kaupa varmadælukerfi fyrir á aðra milljón. Ég veit ekki hvort sá búnaður sleppur eða ekki.“
Ingibergur segir að þegar mest hafi verið í ánni í gær hafi stórir ísjakar komið niður með ánni.
„Það hefur krapastífla losnað sem hefur væntanlega verið í Nátthagavatni, sem kallað er, þarna aðeins fyrir ofan okkur.“
Ég fór í vinnuna í gær og þá var ekki byrjað að flæða yfir en það stóð reyndar tæpt. Dælurnar höfðu svo bara ekki undan þegar áin fór yfir kantinn. Þetta hefur gerst hratt.“
„Ég hef búið hérna síðan 2005 og við höfum einu sinni séð svona krapaflóð í ánni. Þá flæddi ekki svona mikið. Þetta er það mesta sem ég hef upplifað hér.“
Tekist hefur að dæla öllu vatni út úr kjallaranum og segir Ingibergur að sjatnað hafi í ánni.
„Ætli áin hafi ekki hækkað um rúma tvo metra en það hefur að mestu gengið til baka.“
Aðspurður segir hann að allir vegir hafi sloppið og brúin yfir ána líka.
„Hún stendur nokkuð hátt. Eins var vegurinn hækkaður meira upp í hittifyrra þannig að það slapp til.“