Í dag koma út leiðbeiningar fyrir foreldra um hvernig gott er að taka samtal við börn og unglinga um klám.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stígamótum en verkefnið er unnið á vegum Stígamóta í samstarfi við Frístundamiðstöðina Tjörnina, Jafnréttisskólann, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Rannkyn.
Í tilkynningunni segir að íslenskar rannsóknir hafi ítrekað sýnt á síðastliðnum árum að áhorf á klám sé mjög almennt og reglulegt meðal stórs hóps unglinga hér á landi.
Tæpur helmingur stráka í efri bekkjum grunnskóla horfir á klám í hverri viku (frá 1 sinni í viku upp í oft á dag) og á framhaldsskólastiginu eykst áhorfið enn frekar og stór meirihluti stráka á þeim aldri neytir kláms reglulega. Börn allt niður í 6-7 ára sjá óvart klám á netinu og vísbendingar eru um að meðalaldur við fyrsta áhorf sé í kringum 11 ára.
Leiðbeiningarnar eru skrifaðar með ólíka aldurshópa í huga og snerta á hlutum eins og hvaða tón er gott að nota, hvar og hvenær er gott að spjalla og til hvaða orða er gagnlegt að grípa.
Leiðbeiningarnar má finna hér.