Ríkissáttasemjari hefur enga heimild til að afsala þjóðinni rétt á því að bera niðurstöðu Landsréttar undir æðra dómstig.
Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, í nýjasta þætti hlaðvarps Þjóðmála.
Þátturinn var settur í loftið í gærdag, rétt áður en Landsréttur sneri við ákvörðun héraðsdóms þess efnis að Eflingu bæri að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt, þannig að hægt væri að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í vinnudeilu Eflingar og Samtaka avinnulífsins.
Í þættinum er fjallað um þá gagnrýni sem Jón Steinar hefur í gegnum árin lagt fram á íslenska dómskerfið, það hvernig dómarar starfa og hvernig þeir eru skipaðir og margt fleira. Þátturinn snýst því að miklu leyti um réttarkerfið og lögfræðilega umgjörð þess, en í lok þáttarins víkur Jón Steinar stuttlega að fyrrnefndu máli.
Ríkissáttasemjari samdi sem kunnugt er við Eflingu um að hann fengi félagatal Eflingar afhent ef Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, gegn því að hann félli frá því að skjóta málinu til Hæstaréttar ef Landsréttur sneri við ákvörðun héraðsdóms.
Jón Steinar segir að ríkissáttasemjari hafi ekki heimild til að semja með þessum hætti.
„Ríkissáttasemjari semur við fólk í verkfalli um það að ef að hann fær ekki skrárnar yfir félagsmennina sem hann þarf að fá til þess að láta greiða atkvæði um tillögu hans, þá muni hann hætta og ekki nýta sér málskotsrétt til Hæstaréttar ef hann tapar málinu þar,“ segir hann í þættinum.
„Hvaða rétt hefur hann til þess að gefa þessa yfirlýsingu? Á ekki íslenska þjóðin lögbundinn rétt á því að fá niðurstöðu dómstóla ef að á þarf að halda? Af hverju fara menn svona með valdið?“ spyr Jón Steinar.
Hægt er að hlusta á þetta innlegg undir lok þáttarins hér að ofan. Þátturinn er jafnframt aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum, þar á meðal hér á mbl.is.