Reykjanesbrautin var lokuð í hátt í tvo tíma í gær vegna slyss sem átti sér stað á brautinni. Tvær bifreiðar skullu saman og voru báðir bílstjórar fluttir á sjúkrahús. Annar þeirra var alvarlega slasaður.
„Þetta var á þessari einföldun, eins og við köllum,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Rétt áður en þú kemur að tvöfölduninni, þarna höfuðborgarmegin. Það er ekkert sem aðskilur þessar akreinar.“
Hann segir að ransóknarnefnd samgönguslysa hafi einnig verið kölluð á vettvang og að lögregla hafi þurft að beita tækjum til þess að ná bílstjóranum úr annarri bifreiðinni. „Þeir voru illa farnir, þessir bílar.“
Veðurfar hafi þar að auki verið afar óhagstætt þegar slysið átti sér stað. „Það var náttúrlega rok á vettvangi og yfirborð vegar blautt.“