„Þá mætti mér klofdjúpt vatn“

Rafmagni sló út á heimili Jóhanns Helga Hlöðverssonar við Helluvatn ofan Reykjavíkur í gær.

„Þetta er sumarbústaður með dælur í kjallaranum úr vatnsbrunni. Klósettin voru hætt að virka og það var ekkert rennandi vatn,“ segir Jóhann og heldur áfram.

„Ég ætlaði niður að athuga hvort eitthvað hefði slegið út en þá mætti mér bara klofdjúpt vatn.“

Jóhann Helgi Hlöðversson við sumarbústaðinn.
Jóhann Helgi Hlöðversson við sumarbústaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alveg glatað

Talsvert hefur rignt á suðvesturhorninu og miklir vatnavextir orðið í kjölfarið.

„Ég finn til vöðlur og næ að komast þarna niður og þá eru sennilega um 80 sentimetrar af vatni yfir öllu gólfinu og allt á rúi og stúi. Ofnar, dælur og hitakútar möruðu í hálfu kafi og allt var útslegið.

Þá höfðu hillurnar flotið upp og persónulega dótið okkar var bara allt út um allt. Vonandi er hægt að bjarga einhverju en það var auðvitað alls konar dót þarna sem verður ekki hægt að bjarga, sem er auðvitað alveg glatað.“

Vatnsyfirborðið náði um það bil 20 sentimetrum yfir þröskuldinn.
Vatnsyfirborðið náði um það bil 20 sentimetrum yfir þröskuldinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vatnsyfirborðið náði einum metra

Jóhann segir að áður hafi lekið inn í kjallarann en aldrei svona mikið.

„Inngangurinn inn í kjallarann er líklega í svona 60 sentímetra hæð frá landinu fyrir utan en það er yfirleitt á þurru. Núna náði vatnið svona 20 sentimetra yfir þröskuldinn við dyrnar.

Ég gat séð á línunni á [inni]hurðinni að það voru svona milli 70-80 sentimetrar sem vatnið hafði sjatnað um en það var enn að minnsta kosti 20 sentimetrum yfir eðlilegri vatnsstöðu.“

Jóhann er nýkominn úr löngu ferðalagi.

„Við erum nýkomin heim úr 12 vikna ferð um Suðurhöfin. Við vorum í Suður-Íshafinu þar sem við sigldum frá Los Angeles og alveg til Argentínu.

Morgninum var varið í að bera út dót og koma í þurrkun eins og hægt var. Næsta skref er að kanna með tryggingar en það var ekkert tjón á fólki eða neitt slíkt, þetta er bara eins og hvert annað hundsbit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert