Tugmilljóna tjón á vegakerfinu

Mikil rigning var um sunnan- og vestanvert land í gær …
Mikil rigning var um sunnan- og vestanvert land í gær með tilheyrandi vatnavöxtum. Ljósmynd/Ragnheiður Pálsdóttir

„Okkar menn í Búðardal hafa aldrei séð jafn mikið vatn. Það er úti um allt einfaldlega. Við erum að gefa okkur að þetta sé allavega tugmilljóna tjón en það hefur ekki verið metið til fulls.“

Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, en vatnavextir hafa víða valdið tjóni, sér í lagi á Vesturlandi og á Vestfjörðum.

Skemmdir mjög víða

„Þetta er töluvert mikið tjón. Það er ekki að sjá við fyrstu sýn að það sé stórfenglegt á hverjum stað en það eru skemmdir mjög víða á vegakerfinu og þá sérstaklega á Vesturlandi.

Það eru skemmdir í klæðningu og brotholur. Þá hefur runnið úr vegum og ræsi hafa skemmst. Það þarf að skipta um þau og svo framvegis.“

Mjög víða hefur flætt yfir vegi og ræsi höfðu ekki við vatnsflaumnum.

G. Pétur segir Vegagerðina eftir að sjá betur í dag hversu umfangsmiklar skemmdir hafa orðið á vegakerfinu.

Allt tiltækt lið reynt að bjarga verðmætum

Hann segir að allt tiltækt lið sem Vegagerðin hafði til ráðstöfunar hafi verið í vinnu í gær við það að reyna bjarga verðmætum en ástandið á svæði þjónustustöðvarinnar í Búðardal hafi verið verst og menn hafi ekki séð annað eins.

Eitthvað var um aurskriður á vegi og slitlag hefur skemmst af þeirra völdum. G. Pétur segir næstu daga fara í að klára þær viðgerðir sem hægt er að ráðast í strax og meta umfang skemmda.

Vegir í sundur og skemmdir á brúarmannvirkjum

Á Snæfellsvegi 54 hafa orðið töluverðar skemmdir. Fylling fór úr landkörum og mögulega eitthvað undan undirslætti brúar. Vatn flæddi yfir veginn, ræsi gáfu sig og grófu veginn nánast í sundur. Loka þurfti veginum við Bakká.

Helgafellssveitarvegur er rofinn þar sem ræsi við Staðarbakka gaf sig og einnig fór hann í sundur við Kljá en búið er að lagfæra það.

Þá urðu fjölmargar skemmdir á hinum og þessum vegum og eins og G. Pétur segir töluvert tjón víða sem hleypur á tugmilljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert