Undanþágunefnd Eflingar hefur samþykkt beiðnir lögreglunnar, um að áfram verði hægt að afla eldsneytis til að knýja bifreiðar embættisins, vegna fyrirhugaðs verkfalls olíubílstjóra verkalýðsfélagsins.
Þetta staðfestir Gunnar Hörður Garðarsson, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra, við mbl.is.
Verkfall olíubílstjóranna hefst á hádegi á morgun ef samningar milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins nást ekki fyrir þann tíma.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði við mbl.is fyrr í kvöld að hátt í 200 undanþágubeiðnir lægju fyrir. Nefndin kom saman til fundar í kvöld til að fara yfir og afgreiða beiðnirnar.