„Það er ófært hjá okkur á Snæfellsnesvegi utan við Bíldhól, vegurinn fór í sundur þar við Bakkaá,“ segir Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Búðardal, í samtali við mbl.is. Hann segir veginn verða lokaðan í dag en vonir standi til að bráðabirgðaviðgerð náist svo hleypa megi umferð á veginn á morgun.
„Þá erum við búnir að framkvæma bráðabirgðaviðgerðir á vegum í Hörðudal þannig að það er hægt að komast að bæjunum á öllum bílum en það er til bráðabirgða, við eigum eftir að ljúka viðgerðum,“ heldur Sæmundur áfram.
Í Haukadal segir hann þrjá bæi án vegasambands en því verði kippt í liðinn í dag. Þá sé ófært að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd og vegurinn um Skarðsströnd og Fellsströnd skemmdur á nokkrum stöðum en unnið sé að viðgerðum þar.
Sæmundur segir flóð, sem í gær voru á svæðinu, hafa sjatnað verulega, vatnsborð Haukadalsvatns hafi lækkað töluvert svo ekki flæðir lengur inn á veginn þar og ástandið í dag sé mun betra en var í gær.