1.000-2.000 ferðamenn án gistingar um helgina

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að að óbreyttu verði 1.000-2.000 manns án gistingar um helgina vegna verkfalls hótelstarfsmanna sem hófst á hádegi í dag.

Hótel sem verkfallið nær til eru Íslandshótel, Berjayja-hótel, Reykjavík Edition.

„Bókunarstaðan er almennt góð á hótelum og bara á Berjayja eru þúsund herbergi svo dæmi sé nefnt,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir helstu ástæðuna vera þá að ekki sé hægt að sinna þrifum. 

„Þegar gestir dvelja í lengri tíma þá er hægt að bjóða fólki upp á að skipta sjálfu á rúmum. En það gengur ekki upp þegar nýir gestir koma,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dæmi um afbókanir

Hann segir einhver dæmi um afbókanir.

Einnig séu væntanlegir gestir í óvissu því þeir geti ekki fengið flug endurgreitt og þriðji hópurinn sé þegar í landinu, með gistingu á þessum hótelum, en ekki búinn að finna sér annan samastað.

Hann segir áætlanir gera ráð fyrir að um og eftir helgi verði 1.000 til 4.000 manns sem gætu lent í vanda.

„Ef við horfum bara á helgina má áætla að þetta séu 1.000 til 2.000 manns sem verða í vandræðum ef miðað er við bókunarstöðu,“ segir Jóhannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert