Endurnýjun eldsneytisbirgða Strætó á tveimur af þremur bækistöðvum hefur nú verið tryggð.
Þetta segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó í samtali við mbl.is.
„Við erum semsagt búin að fá undanþágu í gegnum Skeljung sem að fyllir þá á tvær af þremur bækistöðvum,“ segir Jóhannes og bætir því við að Skeljungur hafi sótt um undanþágu og fengið hana samþykkta sem hafi þessi áhrif fyrir Strætó.
Hann segist búast við því að áfylling á tank þriðju bækistöðvarinnar verði samþykkt um leið og undanþágunefnd tekur þá umsókn fyrir.
„Við erum mjög þakklát fyrir jákvæðar undirtektir og skilning á mikilvægi almenningssamgangna, “ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.