Eldsneyti víða að klárast

Gengið hefur á eldsneytisbirgðir á bensínstöðvum víða á Suðurlandi og suðvesturhorni landsins undanfarna daga en verkfall olíubílstjóra í Eflingu hófst á hádegi í dag.

Nú er svo komið að bensín- og díseltankar standa margir tómir eftir áganginn en hægt er að fylgjast með stöðu mála á vefsíðum bensínstöðva.

Lokað í Skógarlind og allt búið í Hamraborg

Samkvæmt lista sem birtist á heimasíðu N1 er búið að loka fyrir bensín- og díseldælur fyrirtækisins í Skógarlind í Kópavogi. Þá eru díseldælur á bensínstöðvunum á Flúðum, Brautarhól í Biskupstungum, Sandgerði og Vallarheiði allar lokaðar.

Lítið er eftir á tönkum hjá Olís víða á Suðvesturlandi og eru birgðirnar á þrotum í einhverjum tilfellum. Á Þorlákshöfn er dísel og litað dísel búið. Á þjónustustöðinni á Selfossi, Akranesi og ÓB á Eyrarbakka er litað dísel á þrotum og á Olís á Hellu og ÓB á Landvegamótum og Melabraut er dísel einnig búið. Þá er allt bensín búið á ÓB í Hamraborg.

Orkan hefur lokað fyrir bensín- og díseldælur í Fellsmúla. Þá er lokað fyrir díseldælur á Reykjavíkurvegi og í Hraunbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert