Eldsneytisafgreiðslu á þremur stöðvum N1 hefur verið lokað vegna verkfalls flutningabílstjóra sem eru í stéttarfélaginu Eflingu og starfa hjá Olíudreifingu.
Umræddar stöðvar eru í Skógarlind, á Vallarheiði og á Flúðum.
Fram kemur á vefsíðu N1 að raskanir geti orðið á flutningi á eldsneyti til N1-stöðva vegna verkfallsins.
„Síðastliðnar vikur höfum við undirbúið viðskiptavini og starfsfólk okkar eins vel og hægt er,“ segir á síðunni.
Í tilkynningu á vefsíðu Skeljungs kemur fram að vegna verkfallsins verði ekki hægt að bjóða upp á eldsneytisdreifingu á höfuðborgarsvæðinu frá og með klukkan 12 í dag í óákveðinn tíma.
„Verkfallið hefur ekki teljandi áhrif á eldsneytisdreifingu utan höfuðborgarsvæðisins nema í Ölfusi og Hveragerði þar sem dreift er frá birgðastöð staðsettri í Reykjavík. Bátadælur eru opnar og verða þjónustaðar eins og venjulega,“ segir í tilkynningunni.
Á vefsíðu Olís má fylgjast með birgðastöðu eldsneytis á stöðvum fyrirtækisins.