Þrír Íslendingar eru í hópi NetHope sem sendur var til Gaziantep-svæðis í Tyrklandi til aðstoðar eftir hamfararnir í kjölfar jarðskjálftans þar í landi. NetHope eru alþjóðasamtök sem hafa sett upp nettenginu í fjöldahjálparbúðum svo að fólk á svæðinu geti aflað sér mikilvægra upplýsinga í gegn um netið.
„NetHope er í raun og veru regnhlífasamtök 65 stærstu hjálparsamtaka í heimi,“ segir Dagbjartur Brynjarsson, forstöðumaður hjá samtökunum, í samtali við mbl.is.
Meðal þeirra samtaka sem eru hluti af NetHope eru Rauða krossinn, Barnaheill, SOS Barnaþorp og Læknar án landamæra.
„Við erum tengill á milli hjálparsamtaka og tæknigeirans.“
NetHope hefur nú sett upp nettenginu víða um svæðið. Bæði hjá Sameinuðu þjóðunum og fjöldahjálparstöðvum.
„Í svona viðbrögðum eins og núna sendum við hóp á svæðið sem er að setja upp netsamband, bæði fyrir aðra viðbragðsaðila, sama hvaðan þeir koma— hvort það sé frá landinu eða alþjóðlegar hjálparstofnanir— eða hvort það séu alþjóðlegar hjálparsamtök og sömuleiðis til þess að koma á sambandi fyrir almenning.“
Dagbjartur segir að almenningur eigi mjög erfitt með að ná sambandi við ættingja og vini vegna þess að öll sambönd á svæðinu eru stopul. Segir hann stóran þátt í mikilvægi þess að svæðið sé að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft, þar sem það stafi mikil hætta á takmörkuðu upplýsingastreymi.
„Eins og það er í dag, ef að menn eru með einhverja spurningu þá fara menn bara beint í símann og finna svarið sjálfir. Um leið og það er ekki möguleiki verða upplýsingar að verslunarvöru og menn fara að notfæra sér það— bæði með að því selja réttar og falsar upplýsingar. Með því að hafa aðgang að réttum upplýsingum, hjálpar það fólki að hjálpa sér sjálft, það getur hringt inn í neyðarlínur og þess háttar“
Segir hann hópinn hafa sett upp nettenginu þar sem að minnsta kosti 3.000 manns dvöldu.
„Á þessum stað fá þau aðgang að opnu WiFi-kerfi, þannig að þau geta haft samband við þá sem þau þurfa og fengið þær upplýsingar sem þau þurfa.“