Fyrirtæki verði að trúa á á lægri verðbólgu

Lilja Alfreðsdóttir - menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir - menningar- og viðskiptaráðherra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segist sýna stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka skilning. Hún segir einnig að vantrú fyrirtækja spili sinn þátt í verðbólguþróuninni. Þá telur hún það rétta aðferðarfræði að reyna að draga úr einkaneyslunni með tiltækum ráðum. 

Eins og fram hefur komið kynnti Seðlabankinn stýrivaxtahækkun í síðustu viku. Eru stýrivextir nú 6,5%. 

„Það er enginn beinlínis hlynntur vaxtahækkunum en ég tel að Seðlabankinn sé að gera rétt þegar einkaneyslan er að mælast eins sterk og nú er," segir Lilja.

Hún telur helsta verkefnið að verja kaupmátt. 

„Aðal málið er að við lendum ekki í víxlverkun launa og verðlags," segir Lilja.

Hún telur hagkerfið ekki síst í vanda þar sem fyrirtæki hafi minnkandi trú á lækkandi verðbólgu. Það sé ein undirrót verðhækkana. „Verðbólguvæntingar fyrirtækja eru of háar og þau verða að hafa trú á því að verðbólgan muni fara niður.“ segir Lilja. 

Sorglegt ef fólk velur verðtryggð lán 

Hún segir að aldrei hafi verið jafn mikil óvissa um þróun verðbólgu, hvort sem það er á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Á sama tíma og verðbólgan sé há sé hagvöxtur mikill. Hér á landi var t.a.m. 7% hagvöxtur á síðasta ári. 

„Það verður flótti í verðtryggð lán ef við náum ekki tökum á þessari verðbólgu. Það er sorgleg þróun ef hún er að fara að eiga sér stað og við verðum að koma í veg fyrir hana," segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert