Líklegt að eldsneyti verði uppurið á morgun

Nóg hefur verið að gera í Langatanganum í Mosfellsbæ, örtröð …
Nóg hefur verið að gera í Langatanganum í Mosfellsbæ, örtröð í gær en jafnara streymi í dag, þó meira en nóg að gera að sögn stöðvarstjóra. Ljósmynd/Aðsend

„Hjá okkur hefur verið mikið að gera, tankarnir tæmdust í gær og það hefur verið röð meira og minna,“ segir Elsa Forberg, stöðvarstjóri Olísstöðvarinnar við Langatanga í Mosfellsbæ, í samtali við mbl.is en nóg hefur verið að gera á hennar vígstöðvum eins og hjá öðrum söluaðilum eldsneytis það sem af er vikunni.

„Þeir komu nú og fylltu á í morgun en það er farið að ganga töluvert á þá áfyllingu,“ segir Elsa og telur líklegt að eldsneyti verði uppurið á stöðinni þegar á morgun, ellegar á föstudaginn í síðasta lagi. Ívið meiri sala sé í díselolíu og litaðri olíu en hægar gangi á bensínbirgðirnar.

Þessari miklu eldsneytissölu fylgi aukin sala á hressingu og öðru sem stöðin býður upp á. „Já já, fólk fær sér kaffi og rúnstykki eða kók og súkkulaði,“ heldur Elsa áfram og segir örtröðina hafa verið sýnu meiri í gær, en streymið öllu jafnara í dag. Þótt fólk geti greitt eldsneyti sitt með korti úti við dælurnar komi margir inn á stöðina til að greiða.

„Það er bara búið að vera mikið álag og fólk hefur staðið sig eins og hetjur,“ segir stöðvarstjórinn en fimm manns starfa á stöðinni og fjórir eftir klukkan tvö á daginn.

Loka ekki á meðan vörur eru til að selja

Ekki segir hún standa til að loka stöðinni þótt síðustu dreggjarnar seljist úr birgðatönkunum. „Við erum náttúrulega bæði með grillið og Lemon svo við lokum ekki á meðan við höfum hráefni í það og vörur til að selja,“ segir Elsa en Lemon er skyndibitastaður með samlokur og ferskan safa.

Elsa hefur engar upplýsingar um hvernig undanþágumálum verði háttað fyrir hennar stöð, það er afgreiðslu til lögreglu og neyðarviðbragðsaðila annarra. „Þú verður að spyrja hann Jón Árna út í það,“ segir stöðvarstjórinn að lokum.

„Við erum að sjóða saman verklagsreglur í kringum þetta,“ segir Jón Árni Ólafsson, sviðsstjóri smásölusviðs Olís, við mbl.is. Hann segir svör frá Eflingu ekki hafa verið alveg skýr um þetta atriði, ekki sé komin staðfesting þaðan á meðhöndlun undanþága.

Ættu að geta þjónustað vandræðalaust

„Ferlið er þannig að forgangsraða, sækja um undanþágu hjá Eflingu og við fáum svo sendar upplýsingar frá þessum undanþáguaðilum,“ segir Jón Árni sem reiknar með að margar stöðvar Olís verði opnar. Nú sé verið að fara yfir það með Olíudreifingu hvað hún ráði við í ljósi aðstæðna.

„Sú skipulagning er á lokametrunum en við ættum alla vega að geta þjónustað þá aðila sem eru með undanþágu hratt og vel og án allra erfiðleika,“ segir Jón Árni að lokum af stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert