Meðal dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga um 650 þúsund

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga á Landspítala eru nú 525.266 krónur. Við það bætast greiðslur fyrir starfsaldur, viðbótarmenntun og hæfni sem þýðir að meðal dagvinnulaun almennra hjúkrunarfræðinga á Landspítala eru um 650 þúsund krónur á mánuði.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem óskað var eftir á fundi velferðarnefndar Alþingis 17. janúar þar sem fjallað var um stöðuna á Landspítala vegna aðstæðna á bráðamóttökunni í Fossvogi.

Um helmingur starfandi hjúkrunarfræðinga er nú í dagvinnu en árið 2019 var þetta hlutfall rúmlega þriðjungur. Meðalaldur þeirra er 45 ár.

„Launin eru því í engu samræmi miðað við 4 til 6 ára háskólamenntun, yfir 20 ára starfsreynslu, starfstengt álag og ábyrgð. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga kallar eftir því að meta þurfi sérstaklega ábyrgð hjúkrunarfræðinga til launa í samanburði við aðra háskólamenntaða sérfræðinga sem starfa hjá ríkinu og vísar í því samhengi til niðurstöðu gerðardóms frá 1. september 2020 þar sem segir m.a. „...að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar,“ segir í erindinu, sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Guðbjörg Pálsdóttir, skrifar undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert