Á sjötta tíma verkfallsins hefur almenningur hamstrað meira bensín en stjórnendur olíufyrirtækja áttu von á. Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, segir hratt gengið á birgðirnar og fólk taki með sér stór ílát.
„Þetta eru stærri ílát heldur en við áttum von á. Það er ekkert óalgengt að sjá fólk mæta með þúsund lítra plastbakka. Það er svolítið kostulegt að fylgjast með þessu.“
Spurður um birgðastöðu stöðvanna segir hann:
„Það er mjög misjafnt. En eftir því sem stöðvum fækkar, þá náttúrulega eykst álag á þær sem eftir eru. Við áttum í upphafi von á að þær stöðvar sem núna hafa lokað, myndu vera opnar í tvo til þrjá daga. En við vorum að loka tveimur til þremur stöðvum fyrir hádegi.“
Stórir viðskiptavinir, til dæmis ferðaþjónustuaðilar og flutningafyrirtæki, komi á stöðvarnar og taki mikið eldsneyti.
„Það fer mikið á þessa bíla og gengur hratt á þetta. Það eru allir að birgja sig upp, ekki bara heimilin heldur líka fyrirtækin. Síðan höfðum við á nokkrum stöðum gert ráð fyrir að við yrðum góð í 7 til 10 daga en við höfum verið að endurmeta það.“
Einhvern tímann hljóti þó að hægja á eftirspurninni, að sögn Hinriks, enda eyðir fólk ekki meira bensíni þótt verkfall sé í gangi.
„Það er ljóst að það gengur hraðar á þetta en við ætluðum en einhvern tímann hlýtur einkabíllinn að vera búinn að fylla sig. Það hlýtur einhvern tímann að hægja á eftirspurninni. Ég get ekki ímyndað mér að neyslan hjá heimilum sé að aukast vegna þess að það er verkfall.
Ef til dæmis 90% af þjóðinni eru búin að fylla á, þá hlýtur að fara að koma tími þar sem hlutirnir eru eðlilegir aftur. Svo birgðirnar sem eftir eru hljóta að endast lengur heldur en það sem við höfum séð síðastliðna daga.“
Verkfallið setur einnig strik í reikninginn á landsbyggðinni og eru dæmi um stöðvar þar sem standa tæpt. Að lokum segir Hinrik mikilvægt að varlega sé farið með bensín og það geymt í öruggum ílátum.