Verkföll Eflingar sem hafa áhrif á starfsfólk Berjaya-hótela, Edition-hótelsins, Samskipa, Skeljungs og Olíudreifingar hófust nú á hádegi. Aðstoðarframkvæmdastjóri Berjaya-hótela segir verkföllin hafa mismikil áhrif á hótelin sjö í Reykjavík.
„Það fer náttúrulega aldrei vel í neinn að standa í verkfallsaðgerðum, hvort heldur sem á við þá sem eru í verkfalli eða þá sem fyrir því verða. Við virðum rétt fólks til þess að fara í verkfall og reynum að standa þetta af okkur,“ segir Hildur Ómarsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri.
Hún segir mikilvægt að muna það að verkfallið nái ekki til allra starfsmanna hótelanna. Litlar sem engar afbókanir hafi borist vegna verkfallsins. Það sé þó borðleggjandi að rekstur haldi ekki áfram ef verkfall dregst.
„Ef vistir klárast þá náttúrulega þjónustum við ekki, ekki frekar en verslanir eða nokkur annar. Við bara tökum einn dag í einu núna,“ segir Hildur.
Hún segir hótelin hafa endurskipulagt sína starfsemi til þess að aðlagast nýjum raunveruleika í ljósi verkfallsins, það hafi verið flóknasta verkefni síðustu daga.
„Það eru ekki allir starfsmenn hjá okkur í verkfalli, þetta hefur fyrst og fremst áhrif á herbergjadeild og þrif á herbergjum,“ segir Hildur. Hún segir reksturinn eftir að verkfall tók gildi fara eftir því hvernig blanda starfsfólks í mismunandi stéttarfélögum sé á hótelunum.
Þá segir hún stærsta verkefni stjórnenda hótelanna vera að sinna gestum og starfsfólki.
„Okkar verkefni er fyrst og fremst að hlúa að gestum okkar og starfsfólki og gæta að öryggi þeirra. Augljóslega náum við ekki að tryggja það áfram ef kemur til þess að við þurfum að loka hótelunum hvert af öðru á næstu dögum,“ segir Hildur að lokum.