Nýr ríkissáttasemjari á um marga kosti að velja

Ástráður Haraldsson er settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, …
Ástráður Haraldsson er settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, þar sem Halldór Benjamín Þorbergsson og Sólveig Anna Jónsdóttir eru í forsvari. Samsett mynd

Staðan í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er engu skýrari eftir úrskurð Landsréttar um að stéttarfélaginu beri ekki skylda til þess að láta kjörskrá félagsins af hendi, en þar er einnig staðfest að atkvæðagreiðsla um miðlunartilögu ríkissáttasemjara eigi að fara fram. Nær er að tala um pattstöðu en „fullnaðarsigur“, líkt og lögmaður Eflingar gerði um úrskurðinn, standi hann.

Ástráður Haraldsson, sem var settur ríkissáttasemjari í kjaradeilunni í gær eftir að Aðalsteinn Leifsson sagði sig frá henni, beið ekki boðanna og boðaði samninganefndir málsaðila til sáttafundar í Karphúsinu kl. níu árdegis í dag. Er Morgunblaðið spurði hvort hann teldi sig skuldbundinn af samkomulagi Aðalsteins við Eflingu þess efnis, að úrskurður Landsréttar yrði ekki kærður, kvaðst Ástráður eiga eftir að skoða málið.

Samkvæmt 176. grein laga um meðferð einkamála má ekki gefa „afsal á rétti til málskots til Hæstaréttar, hvort heldur berum orðum eða þegjandi, […] fyrr en dómur er genginn í máli“.

Ýmsir kostir að lögum

Lögmenn sem Morgunblaðið ræddi við telja þó að settur ríkissáttasemjari eigi fleiri leiki í stöðunni en áfrýjun.

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara var lögð fram hinn 26. janúar og átti atkvæðagreiðslunni að ljúka 31. janúar. Miðlunartillaga telst samþykkt nema hún sé beinlínis felld í atkvæðagreiðslu drjúgs hluta allra félagsmanna. Þannig er hún samþykkt ef þátttaka í kosningu um hana nær ekki 20% og aukinn meirihluta þarf til að fella hana ef þátttaka er á bilinu 20-35%.

Lára V. Júlíusdóttir, hrl. og sérfræðingur í vinnurétti, telur til greina koma að ríkissáttasemjari skoði að lýsa því einfaldlega yfir að miðlunartillagan teldist samþykkt, þar sem hún hefði ekki verið felld.

Í lögunum er ekki gert ráð fyrir því að samninganefnd félagsins komi í veg fyrir atkvæðagreiðslu félagsmanna með athafnaleysi. Annar lögmaður taldi því koma til greina að láta reyna á lögjöfnun, því í lögum sé fjallað um sambærilega ákvarðanatöku. Þar segir að eftir undirritun samninganefndar öðlist samningar sjálfkrafa fullt gildi eftir fjórar vikur frá undirritun nema félagsmenn hafi fellt þá í atkvæðagreiðslu. Yrði fallist á það tækju þeir því gildi eftir tvær vikur, þar sem Efling hefur komið í veg fyrir að félagsmenn felli tillöguna, sem væri óneitanlega óvænt vending.

Þá hefur verið nefnt að ríkissáttasemjari gæti einfaldlega efnt til eigin kjörfundar félagsmanna Eflingar en Lára telur öll tormerki á því af praktískum ástæðum. Félagsmenn geti ekki fært sönnur á aðild sína, þar sem ekki séu útgefin félagsskírteini. Launaseðlar dugi ekki til, enda greiði fleiri til félagsins en félagsmenn.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert