Fundur SA og Eflingar hjá ríkissáttasemjara er að hefjast í Karphúsinu og er fólk byrjað að tínast inn í salinn.
„Ég tel engar líkur á að þetta muni leiða til nokkurrar niðurstöðu hér í dag,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í Karphúsinu.
Hann sagði það nýmæli að Efling skuli mæta þegar ríkissáttasemjari boði til fundar.
„Mér hefur þótt innantómur tónn í því að segjast vilja semja en mæta síðan ekki,“ bætti hann við.
„Ég geri ráð fyrir því að við verðum hérna eitthvað inn í dag en ég hins vegar ítreka að langlundargeði Samtaka atvinnulífsins eru einhver mörk sett,“ sagði Halldór Benjamín einnig og nefndi að fulltrúar SA muni ekki sitja undir neinum „sýndarviðræðum“ í Karphúsinu á sama tíma og Efling boði mjög umsvifamikil verkföll.
Ástráður Haraldsson, sem var settur ríkissáttasemjari í kjaradeilunni í gær eftir að Aðalsteinn Leifsson sagði sig frá henni, beið ekki boðanna og boðaði samninganefndir málsaðila til sáttafundarins.