Fjölbreyttar undanþágubeiðnir Skeljungs hafa verið samþykktar. Ná þær meðal annars til Strætó og Hreyfils en er þó beðið eftir niðurstöðum fleiri beiðna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skeljungi. Haft er eftir forstjóra Skeljungs, Þórði Guðjónssyni þar sem hann segir fyrirtækið ánægt með góðar undirtektir Eflingar.
„Hluti þeirra undanþágubeiðna sem við sendum hafa nú verið afgreiddar en við bíðum svara við nokkrum beiðnum enn þá. Við erum ánægð með góðar undirtektir af hálfu Eflingar gagnvart þeim undanþágubeiðnum sem við höfum fengið samþykktar, með því móti er öryggi og almannaheill betur tryggð við krefjandi aðstæður.“
Með samþykktum beiðnanna hefur Skeljungur nú leyfi til þess að dreifa JET A-1 eldsneyti á innanlandsflugvelli og dísil á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll.
Þá verður dísil einnig dreift á tanka Strætisvagna og varaaflsstöðvar. Einnig verður dísil ásamt bensíni dreift á bensínstöð Hreyfils í Fellsmúla.