Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur ekki vera þörf á aðgerðum af sinni hálfu til þess að koma í veg fyrir atvik á borð við það sem átti sér stað á Keflavíkurflugvelli í nóvember á síðasta ári, þegar störf fréttamanna voru hindruð.
Þetta kemur fram í svari Jóns við fyrirspurnum sem Blaðamannafélags Íslands sendi ráðherra í janúar vegna atviksins.
Umrætt atvik átti sér stað þann 3. nóvember er lögregla var að vísa hælisleitendum úr landi. Starfsmenn Isavia beindu þá ljósum að fréttamönnum svo hvorki var hægt að sjá né taka upp það sem átti sér stað.
Blaðamannafélag Íslands sendi dómsmálaráðuneytinu fyrirspurn um atvikið þann 24. janúar og bárust svör þann 26. janúar.
Fram kemur í svörum dómsmálaráðherra að hann hefði ekki aflað sér frekari upplýsinga um hvort, og þá hvers vegna, ákvörðun hefði verið tekin um að hindra störf blaðamanna á Keflavíkurflugvelli 3. nóvember, fyrir utan þær sem ríkislögreglustjóri gaf út opinberlega.
Spurður hvort og hvernig það samræmdist eftirlitshlutverki ráðherra gagnvart lögreglu segir hann:
„Ekki verður betur séð en að RLS [ríkislögreglustjóri] hafi tekið þetta einangraða tilvik föstum tökum og rætt það ekki aðeins innan lögreglunnar heldur einnig við Isavia og Blaðamannafélag Íslands.“
Segist hann vera „fullviss að lögreglan muni fylgja því eftir“ og telur þess vegna enga þörf á nokkrum aðgerðum af sinni hálfu til þess að koma í veg fyrir að atvik á borð við þetta eigi sér aftur stað.