Vegurinn rofinn á ný vegna flóðs

Mynd frá brúarsmíðinni sem tekin var í janúar.
Mynd frá brúarsmíðinni sem tekin var í janúar. Ljósmynd/Sigmundur Sigurgeirsson

„Þarna kom mikið flóð og flæddi upp á fyllingu þar sem mótastoðirnar eru undir brúnni,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is um flóð í Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi í fyrradag þar sem Ístak vinnur nú að byggingu nýrrar brúar sem langt er komin.

Nú er að sögn Óskars búið að strekkja brúna, eða spenna hana upp, sem gerir það að verkum að hún hvílir ekki lengur á steypumótunum en þau þola þá fyrir vikið minni ágjöf og var því nauðsynlegt að rjúfa Skeiða- og Hrunamannaveg að nýju, eins og gert var undir lok janúarmánaðar, til að hleypa mesta straumnum fram hjá brúarframkvæmdunum.

„Við þurftum að létta á þrýstingnum og eins gefa verktakanum svigrúm til að hreinsa mótin undan. Þau standa á fyllingu og fyrir framan hana var búið að byggja upp klakavarnargarð sem fór líka í þessum leysingum,“ segir Óskar frá.

Nú sé verkefnið að bjarga mótunum og undirslættinum og beina ánni svo undir brúna á nýjan leik. Vegfarendum er á meðan bent á að nota Biskupstungnabraut, Bræðratunguveg og Skálholtsveg en staðan verður metin annað kvöld. „Þetta eru auðvitað óþægindi fyrir íbúa í nágrenninu,“ segir Óskar.

Hann reiknar með að umferð verði hleypt yfir brúna snemma vors en slitlag verði ekki lagt á hana fyrr en komið verði sumarveður. „Hún verður líkast til opnuð fyrr með malarslitlagi og lægri hámarkshraða en hún er orðin steypt og traust núna, aðstæður voru mjög krefjandi fyrir verktakann meðan á steypuvinnunni stóð, sem voru tveir sólarhringar, en þegar burðarþolskaplar voru strekktir tíu dögum síðar var brúin orðin sjálfberandi,“ segir Óskar Örn Jónsson af framkvæmdunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert