„Við gerum allt sem við getum til að halda eðlilegri starfssemi,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar í samtali við mbl.is en fleiri hafa gert sér ferð í matvöruverslanir á síðustu dögum til að undirbúa sig undir verkfall olíubílstjóra í Eflingu.
„Það er aðeins meira að gera en venjulega, það eru stærri körfur en það er ekki verið að hamstra. Fólk er í rauninni bara að gera ráð fyrir að það komist ekki í verslun næstu daga.“
Guðrún segir að búið sé að gera ráðstafanir í verslunum Krónunnar en þau hafa verið að birgja sig upp síðustu daga.
„Við erum í góðu samstarfi við okkar flutningsaðila og birgja varðandi dreifingu í verslanir. Verslanir verða að sjálfssögðu opnar út helgina.“