„Viljugur að heyra okkar sjónarmið“

Sólveig Anna Jónsdóttir mætti til fundar í Karphúsinu ásamt öðrum …
Sólveig Anna Jónsdóttir mætti til fundar í Karphúsinu ásamt öðrum félagsmönnum Eflingar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Deiluaðilar í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins funda nú í Karphúsinu með Ástráði Haraldssyni settum ríkissáttasemjara í deilunni í sitt hvoru lagi.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar veitti stutt viðtal á meðan hún gekk á milli herbergja í Karphúsinu nú fyrir skömmu en hún situr á þessari stundu á einkafundi með Ástráði.

Sólveig Anna Jónsdóttir í Karphúsinu.
Sólveig Anna Jónsdóttir í Karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum mjög ánægð með að vera búin að fá hann inn í þessa deilu. Við upplifum að hann sé sannarlega viljugur að heyra okkar sjónarmið. Við skulum sjá hvað gerist.“

Sólveig segist aðspurð ekki vita hversu lengi fundahöld munu standa yfir.

„Ég er hér og við komum hingað til þess að semja og það er okkar hugarfar og það er enn mjög ríkur samningsvilji til staðar hjá okkur eins og hefur verið í allar þessar mörgu vikur.

Okkar tilboð er enn á borðinu en svo skulum við sjá hverju framvindur hér í dag.“

Hún segir ekki hafa komið meldingar frá stjórnvöldum og sagðist eiginlega ekki eiga von á því.

„En hvað veit ég?“

Segist ekki trúa að hún geti stýrt öllu

Halldóri Benjamín Þorbergssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins hefur verið tíðrætt um hugsanleg verkbönn undanfarið.

Sólveig segir slík áform ógeðsleg.

„Ég held að það verði ekki gert. Ég er ekki að ákveða þetta.

Ég er ekki eins og Halldór Benjamín. Ég trúi því ekki að ég hafi hér öll völd í þessu samfélagi og geti stýrt öllu,“ segir Sólveig Anna.

Hún segir ákvörðun um verkbönn vera ákvörðun SA og eitthvað sem hún geti aðeins haft skoðun á.

„Hugmyndir um slíkt eru fyrir neðan allar hellur. Við skulum bara gera góðan kjarasamning, er það ekki það skynsamlegasta í stöðunni?“

Ástráður Haraldsson er settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, …
Ástráður Haraldsson er settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, þar sem Halldór Benjamín Þorbergsson og Sólveig Anna Jónsdóttir eru í forsvari. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert