Tæplega helmingur þátttakenda í nýrri könnun fjölmiðlanefndar segir ögrun eða háð hafa neikvæð áhrif á þátttöku þeirra á netinu. Fjölmiðlanefnd lýsir yfir áhyggjum vegna þessa og segir upplifun þessa hafa áhrif á lýðræðislega umræðu.
Í skýrslu um niðurstöður könnunarinnar sem nefnist „Upplýsingaóreiða og skautun í íslensku samfélagi“ kemur fram að 31,5 prósent þátttakenda hafi upplifað hatursfull ummæli á eigin skinni á netinu. Þá hafi 13,3 prósent upplifað hótanir um ofbeldi og 16,9 prósent einelti eða áreiti. Í þessum þremur flokkum mátti sjá hækkun frá árinu áður.
Um 6,6 prósent hafa upplifað að einhver hafi hæðst að þeim eða fundist sér ógnað í umræðum eða athugasemdakerfum á netinu og lækkar það hlutfall á milli ára.
Niðurstöður könnunarinnar sýna að ögrun eða háð á netinu hafði neikvæð áhrif á þátttöku 43 prósent þátttakenda. Eftir þessa upplifun sögðust 15 prósent hafa brugðist við á þann veginn að vera varkárari í að lýsa skoðunum sínum á meðan 15 prósent hættu að taka þátt í umræðum á netinu. Einnig leituðu 8 prósent í frekari umræður í lokuðum hópum.
Í skýrslunni lýsir fjölmiðlanefnd yfir áhyggjum sínum vegna þeirra sem draga sig til hlés í umræðum á netinu.
„Með því skapast hættan á því að samtalið á netinu endurspegli ekki samfélagið sem heild því hluti fólks treystir sér ekki til þess að taka þátt. Hættan er að þessi hópur upplifi sig sem raddlausan og bældan og þar með ekki með sama tilverurétt á netinu og annað fólk. Það hefur áhrif á samfélagssáttmálann og lýðræðislega umræðu.“
Einnig var kannað hvort að þátttakendum mislíkaði mjög við einhverja tiltekna hópa samfélagsins. Sá hluti könnunarinnar var byggður á sænskri fyrirmynd og heimfærður á Ísland. Niðurstöðurnar gefa til kynna að fólki mislíki þeir sem eru hinu megin á skoðanaásnum miðað við þau sjálf.
Meira en helmingur þátttakenda sagðist líka mjög illa við loftslagsneitunarsinna, andstæðinga þungunarrofs og andstæðinga bólusetninga.
Þegar kemur að stuðningsfólki stjórnmálaflokka eru hóparnir mis vel liðnir. 4,9 prósent líkar illa við stuðningsfólk Viðreisnar, 6,4 prósent stuðningsfólk Framsóknarflokksins, 7 prósent stuðningsfólk Vinstri grænna og 8,1 prósent stuðningsfólk Samfylkingarinnar. 9,9 prósent stuðningsfólk Flokks fólksins, 13 prósent stuðningsfólk Pírata, 14 prósent stuðningsfólk Sósíalistaflokksins, 15,5 prósent stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins. Á toppnum trónar svo Miðflokkurinn en 25 prósent þátttakenda mislíkar mjög stuðningsfólk þeirra.
Könnunin var framkvæmd af Maskínu fyrir fjölmiðlanefnd og tóku 983 þátt dagana 4. til 11. nóvember. Hópurinn sem svaraði könnuninni endurspeglaði þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.
Frekari upplýsingar og niðurstöður könnunarinnar má sjá með því að smella hér.