Birgjar búnir að birgja sig upp

Næg matvara er til fram yfir helgi í verslunum Bónus …
Næg matvara er til fram yfir helgi í verslunum Bónus að sögn framkvæmdastjóra. mbl.is/​Hari

Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus segir að enginn skortur verði á vörum fyrirtækisins fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi.

Hann segir af samtölum sínum við birgja að margir séu búnir að birgja sig upp af eldsneyti þannig að hægt verði að sinna áfyllingum á vörum í einhvern tíma.

Sjálflokað í verslunum 

Hann segir að sum fyrirtæki séu búin að koma sér upp tönkum til að geta haft starfsemina óhindraða í lengri tíma. „Ég veit til þess að margir birgjar og dreifingaraðilar hafa verið að birgja sig vel upp af eldsneyti,“ segir Guðmundur.

Hann segir þó erfitt að meta hversu lengi fyrirtækin geti sinnt áfyllingum.

„Ef að bílarnir hætta að geta keyrt út þá verður sjálflokað,“ segir Guðmundur. 

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdatjóri Bónus.
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdatjóri Bónus. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eiga vörur fram yfir helgi 

Hann telur mikilvægt að anda með nefinu og að ekki sé ástæða til að örvænta enn. „Við munum sjá það betur í næstu viku hvernig landið liggur,“ segir Guðmundur.

Hann segir matarkörfuna stækka og segir mest áberandi að fólk sé að birgja sig upp af þurrvöru. „En við eigum vörur eitthvað vel fram yfir helgi,“ segir Guðmundur. „Ég veit ekki til þess að neinir hnökrar hafi orðið í afgreiðslu það sem af er,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert