Boðað til þjóðfundar um ný lög um skólaþjónustu

Haraldur Jónasson/Hari

Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur boðað til þjóðfundar um framtíð skólaþjónustu á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Fundurinn mun fara fram í Silfurbergi í Hörpu þann 6. mars næstkomandi.

Boðað er til fundarins til að ræða niðurstöður samráðs um ný heildarlög um skólaþjónustu, en mennta- og barnamálaráðherra sagði frá því í haust að hann hygðist leggja þau fram. Á fundinum verður leitast eftir því að varpa ljósi á álitamál er snerta nýju lögin og leita lausna á þeim í sameiningu.

Að lokinni framsögu munu þátttakendur á fundinum vinna saman í hópum, þar sem að álitamál verða rædd og leitað verður lausna á þeim. Þegar hafa yfir 350 manns skráð sig á fundinn og opið er fyrir skráningar til og með 26. febrúar. Hægt verður að taka þátt í fundinum rafrænt.

Undanfarna mánuði hefur víðtækt samráðsferli staðið yfir við fjölbreyttan hóp haghafa um endurskoðun lagana, þar sem m.a. um 300 manns tóku þátt í rafrænum samráðsfundi í desember síðastliðnum. Samráðsferlið hefur leitt í ljós að töluverður samhljómur ríki meðal hagahafa um sýn og áherslur í skólaþjónustu á Íslandi, þó enn séu álitamál sem leysa þurfi úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert