Heimildir mbl.is herma að Eflingu hafi verið gefinn viðbótarfrestur til klukkan 19, til að svara hvort félagið sé reiðubúið að fresta verkfalli á meðan eiginlegum samningaviðræðum stendur.
Fyrst greindi mbl.is frá því að Samtök atvinnulífsins hefðu gefið verkalýðsfélaginu frest til kukkan 18.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, bað í kjölfarið um viðbótarfrest og fékk hann.
Sólveig yfirgaf Karphúsið á sjötta tímanum til að fara á stjórnarfund Eflingar. Hún kvaðst þá aðspurð vænta þess að koma aftur í Karphúsið síðar í dag.
Formlegar kjaraviðræður milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eru enn ekki hafnar. Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og SA, hefur fundað með samninganefndum frá því klukkan tíu í morgun.
Fyrst var greint frá því í Morgunblaðinu, að SA hefðu sett það sem forsendu fyrir formlegum kjaraviðræðum að verkfalli yrði frestað.