Embætti „kattstjóra“ sýnir klærnar

„Ríkiskattstjóri“ minnir á að framtölin verða til reiðu um mánaðamótin …
„Ríkiskattstjóri“ minnir á að framtölin verða til reiðu um mánaðamótin í „mjáríðandi“ tilkynningu. Skjáskot

Einhverjir hafa lyft brúnum yfir nýstárlegri auglýsingu um skattframtöl landans sem nú svífur seglum þöndum um lýðnetið en þar leggur Skatturinn fram „mjáríðandi tilkynningu“ frá „ríkiskattstjóra“ og minnir þar á að skattframtöl, vorboðinn ljúfi, verði framteljendum til reiðu 1. mars.

Ekki eru allir því vanir að opinberar stofnanir bregði á leik í tilkynningum sínum til almennings þótt þar starfi vafalítið hið skemmtilegasta fólk og því ekki örgrannt um að margir muni fagna þessum fersku vindum er nú leika um æðstu yfirvöld álagningarinnar árvissu.

Auglýsing ríkisskattstjóra frá 1980 á formi sem margir munu tafarlaust …
Auglýsing ríkisskattstjóra frá 1980 á formi sem margir munu tafarlaust kannast við frá yfirvöldum skattlagningar. Skjáskot

Mjög yfirborðskennd og stuttaraleg athugun ritstjórnar mbl.is leiddi þó í ljós að „ríkiskattstjóri“ virðist ekki vera nýr af nálinni. Raunar virðist embættið hafa verið til þegar árið 1980 þótt í undirritun auglýsingarinnar sem hér er lögð við sé þó að öllum líkindum um misritun að ræða sem áratugum síðar fær svo byr undir báða vængi Skattsins.

Þegar sumarið 1980 birtist „Ríkiskattstjóri“ í auglýsingu á síðum Morgunblaðsins. …
Þegar sumarið 1980 birtist „Ríkiskattstjóri“ í auglýsingu á síðum Morgunblaðsins. Hann lifir enn góðu lífi árið 2023 en staða vélritarans hefur líklega verið lögð niður. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert