Útfærslur á undantekningum á verkfalli olíubílstjóra Eflingar eru nú í ferli hjá undanþágunefnd og tekið að bera á útfærslum þeirra.
Greint var frá því fyrir skemmstu að Orkan muni þjónusta viðbragðsaðila á bensínstöð sinni í Skógarhlíð.
„Þetta er í góðri vinnslu. Þetta er auðvitað smá snúið og umfangsmikið verkefni en mun ekki verða vandamál,“ segir Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, sem er undanþágunefnd til aðstoðar.
Aðspurður kveðst hann ekki geta fullyrt nákvæmlega hvenær útfærslurnar verði fullkomlega tilbúnar.
„Ég er bara núna að vinna í þessum tæknilegu útfærslum til þess að afgreiða þetta hratt og vel, án þess að sköpuð sé aukin hætta á verkfallsbrotum eða eitthvað slíkt.“
Útfærslurnar sjálfar segir Halldór að séu á borði olíufyrirtækjanna. Þau hafi svigrúm til þess að útfæra framkvæmdina eftir forskrift undanþágunefndar.
„Við erum bara að vinna í þessu. Útfærslan á þessu mun ekki vefjast fyrir neinum, það verður tryggt að þetta verði allt í lagi. Það get ég þó allavega ábyrgst. Það er bara heilbrigt og gott samtal milli aðila sem þarf til þess að svo verði.“