„Efling frestar ekki verkfallsaðgerðum nema eitthvað raunverulegt komi frá Samtökum atvinnulífsins,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, áður en kjaraviðræður hófust í Karphúsinu í morgun.
Þar var hún spurð hvort til greina komi af hálfu Eflingar að fresta verkfallsaðgerðum ef viðræður standa yfir í einhvern tíma.
Spurð hvort það gæti gerst í dag sagðist hún ekki vita hvað gerist á næstu klukkutímum. „Við verðum bara að sjá hvað gerist.“
Sólveig Anna sagðist jafnframt vera vongóð um að hreyfing komist á málin í dag.
„Ég og samninganefnd Eflingar bindum eins og við höfum gert í gegnum þetta allt saman miklar vonir við það að gerðir verði Eflingarsamningar við Eflingarfólk, þannig að já ég ætla að leyfa mér að halda áfram að vona það.“
Hún sagði einnig að verið sé að klára vinnu varðandi hvar undanþáguaðilar geta nálgast eldsneyti og bætti við að enn eigi eftir að fara í gegnum margar undanþágubeiðnir.