Getur sprungið eins og allt annað

Staðan í Karphúsinu hefur ekki breyst mikið, að sögn Ástráðs.
Staðan í Karphúsinu hefur ekki breyst mikið, að sögn Ástráðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, sagði í Karphúsinu fyrir skömmu að staðan hefði því miður ekki breyst mikið.

„Við erum að leita hófanna með það hvort við getum fundið út úr því að koma okkur inn í alvörukjarasamningsviðræður.“

Hann sagði enn verið að reyna að finna sameiginlega fleti til þess að hreyfa kjarasamningsviðræður áfram en hann undirstrikaði að ferlið væri alls ekki komið þangað.

Ástráður sagðist feginn á meðan fólk væri að tala saman og viðræðum hefði ekki verið slitið. Hann sagðist ekkert geta greint frá neinum efnisatriðum hvað það varðaði.

Guð einn veit hvernig dagurinn þróast

Hann sagði málið snúast um að finna á hvaða grundvelli hægt væri að leiða samtalið áfram og hvort hægt væri að koma sér saman um það á hvaða leikvangi ætti að spila.

Guð einn vissi hvernig dagurinn myndi þróast en hann sæi að minnsta kosti glætu.

Aðspurður hvort þetta gæti sprungið í loft upp sagði hann að það gæti gerst eins og með allt í lífinu.

Hann sagði málið hafa svolítið snúist um að af hálfu Eflingar hafi verið lögð áhersla á að það þyrfti að gera kjarasamning sem tæki í meira mæli mið af þeirra tilteknu aðstæðum en SGS-samningarnir gera.

„Það er meðal annars það sem menn hafa verið að skoða hvort hægt sé að koma í kring.“

Ástráður sagði viðræðunefndir fulltrúanna hittast í mjög fámennum hópi og þar færi aðalvinnan fram en engar frekari undirnefndir væru við störf.

„Þetta er mjög einfalt í sniðum og alls ekki komið út í slíka vinnu eins og myndi gerast þegar alvörukjarasamningsviðræður eru komnar í gang.“

Miðlunartillagan ekki til umræðu

Aðspurður sagði Ástráður miðlunartillögu skipaðs ríkissáttasemjara ekki til umræðu.

Hann segist átta sig á að það liggi á og mikilvægt sé að aðilar nái saman sem allra fyrst.

„Ég er bjartsýnn á að við sitjum hér áfram eitthvað eftir matarhlé. Við ætlum að reyna og erum ennþá að reyna.

Á meðan við náum að tosast í rétta átt þá höldum við áfram. Viðræðunum verður alla vega ekki slitið af sáttasemjara ríkisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert