Hæstiréttur hefur ákveðið að taka fyrir mál manns sem fékk dæmdar slysabætur frá Reykjavíkurborg í Landsrétti upp á 5,7 milljónir króna þegar keyrt var á hann á hlaupum eftir að vinnutíma lauk. Er deilt um það hvort krókur á hlaupaleið mannsins hafi tilheyrt leið hans heim úr vinnu.
Veitti Hæstiréttur áfrýjunarheimildina í ljósi þess að um fordæmisgefandi mál er að ræða.
Málið á rætur sínar að rekja til þess þegar ekið var á mann á leiðinni yfir Ánanaust á grænu ljósi. Hann var þá á heimleið eftir venjulegri hlaupaleið sinni að loknum vinnudegi. Landsréttur taldi að leið mannsins meðfram Sæbraut, fram hjá hafnarsvæðinu og að Ánanaustum gæti talist eðlileg hlaupaleið að áfangastað. Sú lykkja af venjulegri leið vestur Seltjarnarnes og að Hagamel hafi verið til þess fallin að lengja leiðina.
Málsvörn borgarinnar byggir einkum á því að tjónþoli geti ekki talist hafa verið á eðlilegri leið frá vinnu að heimili sínu heldur hafi hann verið að sinna heilsurækt eða áhugamáli í sínum frítíma þar sem hann tók krók á leið sína úr vinnu til að lengja hlaupaleiðina.
Engin ágreiningur var um það að maðurinn ætti rétt á bótum sem falla undir slys utan vinnu. Snýst ágreiningurinn um það hvort forsendur bóta heyri undir skilmála um slys í starfi eða utan starfs.
Reykjavíkurborg var sýknuð um bótakröfu í héraði en Landsréttur snéri dómnum við.
Landsréttur taldi manninn ennþá hafa verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis. Þá féllst Landsréttur ekki á að sú málsástæða borgarinnar í greinargerð til Landsréttar, að hann hefði „í það minnsta enn verið á eðlilegri leið“ heim til sín þegar slysið varð, væri of seint fram komin, enda væri hún í eðlilegu samhengi við þá málsástæðu að slysið hefði orðið á eðlilegri leið heim frá vinnu og henni teflt fram sem andsvari við áherslum í héraðsdómi.
Heimilaði Hæstiréttur áfrýjunarheimildina á þeirri forsendu að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um það hvenær slysatryggður starfmaður teljist á eðlilegri leið heim úr vinnu.