„Við höfum auðvitað alltaf verið að vinna að því að bæta málshraða í kynferðisbrotum,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um nýfengna fjárveitingu sem samþykkt var á Alþingi í fyrra með það fyrir augum að styrkja rannsókn og saksókn kynferðisbrota hjá lögreglunni sem nú hefur skilað sér í 37 prósenta fækkun opinna kynferðisbrotamála á ákærusviði og í kynferðisbrotadeild embættis hennar.
Með opnum málum hér er átt við þau mál sem til meðferðar eru hjá embættinu, einkum hjá kynferðisbrotadeild og ákærusviði. Málið telst opið þar til ákvörðun hefur verið tekin í því, annaðhvort sú að rannsókn skuli hætt á ákærusviði eða mál sent héraðssaksóknara til meðferðar.
„Við vitum að langur málsmeðferðartími er þungbær í viðkvæmum málum sem þessum,“ heldur lögreglustjóri áfram, „hvort tveggja fyrir brotaþola og sakborninga og það er hagur allra að gangur málsins sé sem stystur og ekki þurfi að bíða lengi eftir ákvörðunartöku. Slíkt skiptir einnig máli út frá áfallamiðaðri nálgun, því lengur sem mál þitt er til meðferðar hjá okkur, þeim mun meiri áhrif hefur það á þig,“ segir Halla.
Segir hún frá því er hún boðaði Kolbrúnu Benediktsdóttur aðstoðarhéraðssaksóknara á sinn fund í fyrrasumar til ráðagerða. „Þá voru málin að safnast upp og við veltum því fyrir okkur hvernig við gætum aukið gæðin og stytt málsmeðferðartíma um leið. Ein af niðurstöðunum var að við hefðum starfsmannaskipti á ákærendum, við fengum þá mjög reyndan ákæranda frá héraðssaksóknara til að yfirfara ferlana hjá okkur. Í framhaldinu fengum við úthlutað sjö stöðum til að styrkja og efla rannsókn kynferðisbrota hérna hjá okkur, sem skipti sköpum fyrir málaflokkinn.“
Fékk embættið þar með ráðið til sín sérfræðing á líftæknisviði í tæknideild, sérfræðing í tölvurannsóknardeild auk þess sem ráðið var í tvær nýjar stöður á ákærusviði og þrjár í kynferðisbrotadeild. Tvær fyrsttöldu stöðurnar hafa svokallað landsumboð og starfa fyrir öll lögregluembætti landsins.
Kveður lögreglustjóri nýju stöðurnar hafa verið hvalreka á fjörur embættisins og í framhaldinu hafi Theodór Kristjánsson yfirlögregluþjónn haldið utan um stefnumótunarstarf sem verið hafi nauðsynlegt þar sem rannsókn kynferðisbrota snerti nokkrar deildir og svið embættisins. Frá upphafi var mikil samstaða innan embættisins um að rýna hvernig við gætum náð meiri árangri og þarna lögðu allir sitt á vogarskálarnar til þess að svo gæti orðið.
„Við straumlínulöguðum greiningarfundi og skilafundi kynferðisbrotadeildar til að tryggja gæði starfsins og stytta málsmeðferðartímann. Hluti af þessu var svo auðvitað að vinna á málahallanum ef svo má segja, við vorum með allt of mörg opin mál hjá okkur og settum okkur markmið um hvað við ætluðum að gera. Þessum markmiðum náðum við á undan áætlun sem var okkur ánægjuefni,“ segir Halla.
Vissulega séu enn gömul mál í vinnslu sem ekki hefur verið lokið, en með nýjum stöðum og mannskap gangi nú hratt á listann og ætlunin sé að koma málaflokknum í gott horf og halda honum þannig.
„Við þurfum sífellt að hugsa um skilvirkni og í þessum málaflokki verða mikil vatnaskil við að fá þessar sjö nýju stöður. Þá gafst okkur tækifæri til að vinna bunkann frá báðum endum, sinna hvort tveggja eldri málum og þeim nýrri,“ útskýrir Halla.
Hún segir vistaskiptin miklu hafa skilað, ómetanlegt hafi reynst að fá starfsmann frá embætti héraðssaksóknara til að leggja mat á vinnuna sem fram fer hjá lögreglu og koma með sín sjónarmið um hvenær mál teldist vel rannsakað frá bæjardyrum saksóknara séð.
Reynslumikið starfsfólk embættisins skipti auðvitað líka lykilmáli en fleiri stöðugildi hafi hreinlega vantað. Samstarf margra deilda hafi einnig skipt sköpum en framlag allra sem að þessum málum koma sé forsenda þess að lögreglan nái árangri, allt frá rannsökurum, ákærendum og ekki síst frá stoðþjónustu embættisins.
Í byrjun september var 401 opið mál hjá embættinu en 17. janúar voru þau komin niður í 253 og hafði því fækkað um 148. Embættinu barst á sama tíma nokkur fjöldi nýrra mála en í heild lauk rannsókn alls 239 kynferðisbrotamála á þessu fjögurra og hálfs mánaðar tímabili.
Samhliða voru stjórnborð þróuð og endurbætt með því augnamiði að hægt væri að fylgjast með fjölda mála og framvindu þeirra hjá kynferðisbrotadeild og ákærusviði. Kveður Halla þetta framfaraskref við meðferð kynferðisbrota hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og segir vonir standa til að afgreiðslu mála, sem verið hafi of lengi í kerfinu, með tilheyrandi áhrifum á brotaþola, verði flýtt eins og kostur er.
„Við höfum líka starfrækt þjónustugátt fyrir þolendur kynferðisbrota í samstarfi við ríkislögreglustjóra. Þar getur fólk nálgast upplýsingar um hve langan tíma rannsókn geti tekið og fylgst með málinu sínu. Þetta er tilraunaverkefni hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ tekur Halla fram.
Aðspurð segir Halla sveiflur í fjölda kynferðisbrotamála, svo sem eftir tíma árs, ekki vera sérstaklega greinanlegar. „Þetta er ekki algjörlega tilviljanakennt samt, það er örlítið mismunandi hvað kemur inn af málum á hverjum tíma, en þetta er ekki eitthvað sem við sjáum neitt mynstur í, auðvitað eru ekki allir sem kæra strax og það eru ýmsir þættir sem spila inn í hjá fólki,“ segir Halla.
Hún segir það ákaflega jákvætt að Alþingi hafi samþykkt fjárveitinguna og dómsmálaráðherra í framhaldinu úthlutað fénu til styrkingar rannsóknum kynferðisbrotamála. „Nú höldum við bara þessari vinnu áfram og reynum að halda í horfinu, allar forsendur eru til þess núna, en þær voru það kannski ekki áður,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, að lokum.