Merki um að landið sé farið að hitna

Horft yfir Öskju. Mynd úr safni.
Horft yfir Öskju. Mynd úr safni. mbl.is

Íslaust svæði í Öskjuvatni nemur nú 539 hekturum. Nú sjást merki um að land sé farið að hitna yfir eldstöðinni.

Meginhluti vatnsins er hulinn kurluðum ís og aðeins eru sjáanlegir örfáir ísflekar.

Frá þessu greinir Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræðum og náttúruvá.

Fékk stofan senda mynd seint í kvöld frá Sentinel 2-gervitungli Geimvísindastofnunar Evrópu, ESA.

Gervihnattamyndin með útskýringum rannsóknarstofunnar.
Gervihnattamyndin með útskýringum rannsóknarstofunnar.

Snjólaus svæði austan og sunnan við Bátshraun

„Bráðnun er hröð, en hefur hægt á sér eftir að ísinn byrjaði að brotna upp, hefði átt að verða hraðari ef veður og öldugangur væri að stjórna bráð,“ segir í tilkynningu á vef stofunnar.

Tekið er fram að mjög áhugavert sé að sjá á myndinni, að snjólaus svæði séu austan og sunnan við Bátshraun.

„Þarna eru komin stór svæði án snævar og bera ummerki um að landið sé farið að hitna. Sjáum hvað setur.“

Mögulega gos á endanum

„Þetta er mjög óvenju­legt,“ sagði Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur á sviði jarðskorpu­hreyf­inga á Veður­stof­u Íslands, í samtali við mbl.is á mánudag um bráðnun íssins á vatninu.

„Ef það er eins og við höld­um, að það er kvika að koma þarna und­ir, og hún held­ur áfram að flæða, þá bú­umst við við því að það auk­ist jarðhiti, skjálfta­virkni fari að aukast og á end­an­um þá fáum við mögu­lega gos, mögu­lega ein­hver inn­skot. En það er erfitt að segja til um það,“ sagði Benedikt.

Stöðugt landris hef­ur verið við Öskju frá því í ág­úst árið 2021. Landrisið mæl­ist nú mest um hálf­an met­ra lóðrétt en heild­ar­færsl­an er um 70 senti­metra. Bene­dikt seg­ir ekki úti­lokað að bráðnun­in teng­ist henni.

„Þetta er klár­lega merki um að það sé virkni í gangi og mjög lík­lega um kviku­söfn­un að ræða,“ seg­ir Bene­dikt.

„Það eru lík­lega tvær þenslu­upp­sprett­ur þarna. Önnur er dýpri sem er þá vænt­an­lega að fæða ein­hverja sem er grynnri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert