Orkan í Skógarhlíð aðeins opin viðbragðsaðilum

Orkan í Skógarhlíð.
Orkan í Skógarhlíð. Ljósmynd/Aðsend

Skeljungur hefur hafið dreifingu á eldsneyti fyrir neyðaraðila á bensínstöð sinni í Skógarhlíð, og er því stöðin einungis opin viðbragðsaðilum. Þetta segir í tilkynningu frá Orkunni.

„Skeljungur dreifir nú eldsneyti á stöð Orkunnar í Skógarhlíð í samræmi við samþykkt undanþágunefndar Eflingar,“ segir í tilkynningunni en 70 undanþágur voru á þriðjudag samþykktar af undanþágunefnd Eflingar vegna almannaöryggis.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er staðsett í Skógarhlíð.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er staðsett í Skógarhlíð. Eggert Jóhannesson

Orkan mun því koma til með að þjónusta eftirtalda viðbragðsaðila: Lögregluna, Landhelgisgæsluna, heilbrigðisstarfsmenn, slökkvilið, neyðarlínuna, Rauða krossinn, flugstoðir og Slysavarnafélagið Landsbjörg.

„Eingöngu þessum aðilum er heimilt að taka eldsneyti á Orkunni í Skógarhlíð. Því til stuðnings er bent á 2. mgr. 18. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008,“ segir í tilkynningunni ennfremur.

Verkfall olíubílstjóra hjá Eflingu hófst á hádegi í gær og er eldsneyti víða tekið að klárast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert