Viðar Guðjónsson
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ekki tímabært að ræða lagasetningu á verkfall olíubílstjóra sem annarra félagsmanna Eflingar sem nú eru í verkfalli.
Hins vegar verði staðan metin að nýju ef talið er að að almannahag sé ógnað.
Hefur komið til tals að setja lög á verkfall að hluta eða öllu leyti?
„Nei það hefur ekki verið rætt enda teljum við það ekki tímabæra umræðu. Aðilar sitja enn við samningaborðið. Ástráður Haraldsson var settur í stöðu sáttasemjara á mánudag og hér eftir sem hingað til lítum við svo á að farsælast sé að þetta sé leyst við samningaborðið,“ segir Katrín.
Hún segir þó að staðan geti breyst með tilliti til almannahagsmuna. „Ef það er metið sem svo að það sé ógn sem stafar að almannaöryggi þá verður ríkisstjórnin kölluð saman," segir Katrín.
Hún segist meðvituð um að fólk hafi viðað að sér matvöru og eldsneyti en hvetur til rósemdar.
„Ég held að það sé mikilvægt að fólk haldi ró sinni. Við fylgjumst grannt með þróuninni í stjórnkerfinu og reynum að hafa eins glögga mynd af stöðunni og unnt er.“
Hún segir að ríkisstjórnin muni ekki hittast í vikunni vegna kjördæmaviku og að málin hafi verið metin sem svo að ekki væri ástæða til að kalla ríkisstjórn saman vegna kjaradeilunnar.
Katrín segir aðspurð ekki hafa séð eins mikinn hnút á kjaradeilum í hennar tíð. „Það hafa þung orð verið látin falla í þessari deilu og í minni tíð þá er þetta með hörðustu deilum. En ef við horfum aftur í tímann þá höfum við séð töluvert mörg dæmi um harðar vinnudeilur," segir Katrín.