Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps og bæjarstjórn Vesturbyggðar hafa báðar samþykkt að skipa sex fulltrúa í samstarfsnefnd til að kanna möguleika á sameiningu sveitarfélaganna.
Nefndin verður skipuð þremur fulltrúum frá hvoru sveitarfélagi og er stefnt að því að hún skili áliti til sveitarstjórna í maí næstkomandi með það fyrir augum að formleg kynning tillögunnar hefjist í ágúst og að kjördagur verði fyrir lok árs 2023.
Samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Tálknafjarðarhrepps og í fundargerð bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
Tillagan um samstarfsnefndina er lögð fram í kjölfar óformlegra viðræðna fulltrúa sveitarfélaganna og samráðs við innviðaráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.