Skoða aðlögun að félagsfólki Eflingar

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Hákon Pálsson

„Það er svo sem ánægjulegt að Efling samþykkti þessa beiðni. Við hefðum gjarnan viljað fá þetta samþykki fyrr, og höfðum farið fram á það, en við sættum okkur við þessa tillögu að fresta verkföllum núna til sunnudagskvölds og sjáum hvað fram vindur,“ segir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við mbl.is.

Efling hefur samþykkt að fresta verkföllum félagsfólks síns fram á miðnætti sunnudags. SA höfðu farið fram á frestun verkfalla til lengri tíma.

„Við fórum fram á frestun verkfalla til lengri tíma en einungis til miðnættis á sunnudagskvöldi. Við töldum að það væri nauðsynlegt að fresta verkföllum þannig að samningsaðilar gætu einbeitt sér að viðræðum og verið hér á einum stað en ekki út um allan bæ í tengslum við boðaðar vinnustöðvanir,“ segir Ragnar enn fremur.

Áður boðið aðlögun

Efl­ing hefur áður sagt að ekki komi til greina að fresta verk­fallsaðgerðum nema „eitt­hvað raun­veru­legt“ komi frá Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins. 

Spurður hvort SA hafi boðið Eflingu eitthvað sem samninganefnd verkalýðsfélagsins gat ekki staðist segir Ragnar:

„Efling þekkir auðvitað þann ramma sem við erum að vinna með, sem auðvitað byggir á þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir og samþykktir af góðum þorra launafólks. Við höfum ekki boðið annað heldur en að vinna með þann ramma, en skoða einhverskonar aðlögun að félagsfólki Eflingar, eins og við höfum reyndar áður boðið. Þannig að þetta er í raun sú vinna sem við erum að fara í strax í fyrramálið.“

En hvað þýðir að skoða einhvers konar aðlögun að félagsfólki Eflingar?

„Vissulega er Efling með ákveðnar áherslur sem snúa að ákveðnum hópum sem eru kannski þá meira einkennandi hérna fyrir Reykjavíkursvæðið og við erum þá bara tilbúin að skoða það og fara nánar í gegnum það og þær forsendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert