Spá lækkun verðbólgu í febrúar

Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,9% í 9,6%.
Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,9% í 9,6%. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagfræðideild Landsbanka Íslands spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,88% milli mánaða í febrúar. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,9% í 9,6%.

„Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir örlítið meiri verðbólgu en í síðustu spá sem við birtum í lok janúar. Við teljum engu að síður að verðbólgan hjaðni næstu mánuði,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Kom á óvart

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í janúar og jókst ársverðbólgan úr 9,6% í 9,9%. Verðbólgan er sú sama og í júlí í fyrra.

„Óhætt er að segja að mælingin hafi komið okkur á óvart, en við áttum von á að verðbólgan myndi lækka út 9,6% í 9,4%. Langmestu munar um að verð á nýjum bílum hækkaði mun meira en við bjuggumst við,“ segir þar einnig.

Þeir undirliðir sem hafa mest áhrif á verðbólguna að þessu sinni eru matarkarfan, reiknuð húsaleiga, föt, skór, húsgögn og heimilisbúnaður sem vega til hækkunar. Flugfargjöld vega til lækkunar, gangi spáin eftir.

Hærri matarkarfa

„Matarkarfan hækkaði um 2,0% í janúar. Mestu munaði um mikla hækkun á mjólk og mjólkurvörum, en verðlagsnefnd búvara tilkynnti um hækkun á verði mjólkur til bænda í janúar.  Án þessara hækkana hefði matarkarfan engu að síður hækkað um 1,2%. Verðhækkanir í matarkörfunni virðast því vera nokkuð almennar. Við eigum von á að matarkarfan í heild hækki um 1,2% milli mánaða núna í febrúar og að áhrif þess á vísitöluna verði 0,18 prósentur til hækkunar,“ segir þar einnig.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að markaðsverð húsnæðis lækki um 0,1% milli mánaða núna í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert