Viðræður mjakast áfram að réttri niðurstöðu

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta er niðurstaða sem samninganefnd Eflingar tók í sameiningu vegna þess að við trúum því að við getum náð árangri hérna um helgina,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir að tilkynnt var að samninganefndir Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hefðu komist að samkomulagi um frestun yfirstandandi verkfallsaðgerða.

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, segir deiluaðila stefna á að ljúka samningi um helgina.

Spurð hvort hún sé bjartsýn á að samningar náist á þeim tíma, segir Sólveig Anna samninganefndina starfa af miklum vilja og að hún trúi því að viðræður „mjakist áfram“ að réttri niðurstöðu.

Trúa að þeim miði vel áleiðis

Morgunblaðið greindi frá því í dag að forsenda frekari viðræðna, af hálfu SA, væri að verkfalli yrði frestað.

Í viðtali við mbl.is fyrr í dag sagði Sólveig frestun á verkfallsaðgerðum ekki koma til greina nema „eitthvað raunverulegt komi frá Samtökum atvinnulífsins“. 

Aðspurð vildi Sólveig Anna ekki gefa upp hvað gerði það að verkum að samninganefndin féllst á frestun verkfalls.

„Það sem ég er tilbúin að segja er að samninganefnd Eflingar hefði ekki komist að þessari niðurstöðu nema vegna þess að við trúum því að okkur miði vel áleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert