Jarðskjálfti upp á 3,5 mældist norðan við Herðubreið um hálftíuleytið í morgun. Þetta er fyrsti skjálftinn yfir 3 stigum á svæðinu á þessu ári.
Í nóvember í fyrra mældust fjórir skjálftar á svæðinu sem voru stærri en 3 stig, að því er Veðurstofan greinir frá.
Skjálftinn í morgun varð 3,4 kílómetrum norðnorðaustur af Herðubreið.
Í október í fyrra varð jarðskjálfti upp á 4,1 um 2,5 km frá toppi Herðubreiðar. Er hann sá stærsti sem Veðurstofa Íslands hefur mælt þar síðan mælingar hófust árið 1991.