Eldsvoði á áfangaheimili í Vatnagörðum

Slökkviliðið hefur verið kallað út vegna eldsvoða í Vatnagörðum. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu kviknaði eldurinn í áfangaheimili sem þar er staðsettt. Einhverjir voru búnir að koma sér út úr húsinu eftir að eldurinn kviknaði.

Varðstjórinn sagði að búið væri að slökkva mest af eldinum, sem hafi verið mikill, og að verið sé að vinna í þakinu.

Slökkviliðið að störfum í Vatnagörðum.
Slökkviliðið að störfum í Vatnagörðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn hefur verið fluttur á slysadeild, en eldurinn kviknaði upp úr klukkan hálftíu í morgun.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is kviknaði eldurinn í einu herbergi áfangaheimilisins Betra líf. Ekki er vitað til þess að fólk sé enn inni í húsinu en það hefur ekki fengist staðfest.

Heimildin greindi frá því í síðasta mánuði að virkir fíklar og umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi leigt herbergi á áfangaheimilinu.

Eldurinn kviknaði um hálftíuleytið í morgun.
Eldurinn kviknaði um hálftíuleytið í morgun. Ljósmynd/Ásgeir Andri Guðmundsson

Uppfært kl. 10.33:

Að sögn varðstjóra voru nokkrir fluttir á slysadeild, líklega með reykeitrun. Hann sagði að talað hafi verið um fimm manns en gat ekki staðfest það.

Búið er að slökkva eldinn að mestu og núna er vinna við að slökkva í glóðum eftir. Ekki er vitað um upptök eldsins. Ekki er vitað til þess að neinn sé inni í húsinu.

Ljósmynd/Ásgeir Andri Guðmundsson

Uppfært kl. 10.56:

Nokkrir starfsmenn Rauða krossins eru á staðnum til að veita aðstoð. „Enn sem komið er hefur ekki komið nein beiðni um sálræna fyrstu hjálp,“ segir Oddur Freyr Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka