Enn með hugann úti í Tyrklandi

Tekið var á móti teyminu í Skógarhlíðinni.
Tekið var á móti teyminu í Skógarhlíðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Sólveig Þorvaldsdóttir, sem fór fyrir íslenska samhæfingarteyminu í Tyrklandi, telur Íslendinga geta verið stolta af framlagi þjóðarinnar til björgunarstarfsins á jarðskjálftasvæðinu.

Hún er nú nýkomin heim ásamt þeim Friðfinni Guðmundssyni, Svövu Ólafsdóttur og Lárusi Björnssyni en ferðalagið frá Tyrklandi tók þau hátt í tvo sólarhringa. Hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli á fjórða tímanum í dag en þaðan var förinni heitið í Skógarhlíðina þar sem þeim var tekið fagnandi með heiðursboga.

„Mér líður bara vel vegna þess að ég held að við höfum gert gagn. Það er aðalmarkmiðið, að gera gagn,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is. „Ég veit fyrir víst að við hjálpuðum við að gera þessar aðgerðir betri.“

Teymið rennur í hlað.
Teymið rennur í hlað. mbl.is/Árni Sæberg

Tekið þátt í átta alþjóðlegum björgunaraðgerðum

Sólveig starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Almannavörnum ríkisins og hefur reynslu af því að samhæfa aðgerðir en þetta mun vera í áttunda skiptið sem að hún tekur þátt í alþjóðlegu björgunarstarfi. 

„Það er alltaf eitthvað nýtt sem að kemur á óvart,“ segir Sólveig sem er á leið á ársfund alþjóðlegra rústabjörgunarsveita í næstu viku. Þar verða aðgerðirnar í Tyrklandi til umræðu og hvernig megi bæta það alþjóðlega kerfi sem fer í gang þegar slíkar hörmungar verða.

Að sögn Sólveigu hefur Landsbjörg átt virkan þátt í því að þróa það kerfi á síðustu árum. „Við erum engir nýgræðingar í þessu.“

Gáfu almannavörnum í Tyrklandi búnaðinn

Teymið var vel klyfjað á leiðinni út en meðferðis voru meðal annars tvö stór tjöld, klósett, sturtur, matur, læknisbúnaður, vatn, kókómjólk og aðrar nauðsynjar. Fjórmenningarnir komu þó með mun léttari farangur heim þar sem búnaðurinn var að mestu skilinn eftir í Tyrklandi. 

„Við höfðum ekki lengur þörf á þessu og gáfu almannavörnum í Tyrklandi búnaðinn. Annað tjaldið fór í að hýsa túlka og hitt tjaldið var nýtt sem stjórnstöð fyrir almannavarnir.“

Stöðugt áreiti

En hvernig er að vera komin heim?

„Þetta er sérstakt. Það tekur einhvern tíma að vinda ofan af þessu öllu saman í kollinum á mér. Ég er enn þá með hugann þarna úti,“ segir Sólveig sem telur að hún muni þurfa nokkra daga til þess að ná sér alveg niður.

„Það eru tólf dagar sem líða frá því að beiðnin um að fara út kemur og þangað til að við komum heim. Allan tíman er stöðugt áreiti, maður er alltaf að hugsa um þetta mál og svo næsta mál og næsta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert